Monthly Archives: November 2006

*hóst*

Ég er að ranka við mér. Er búin að vera heltekin af kvefi og hálsbólgu síðan á fimmtudaginn. Nú er ég komin á ‘snýtasérendalaust-stigið’ og ‘hósta-úr-sér-lungun-stigið’ sem vonandi þýðir að ég sé að losna úr þessum heljargreipum. sjö-níu-þrettán. Hápúnktur helgarinnar var líklega þegar ég fór og passaði gríslingana þrjá á Meistaravöllunum. Það var skemmtilegt. Þau eru svo skemmtileg. Annað einkenndist algjörlega af slappleika. Var meira að segja of slöpp til að passa gríslingana á kleppsvegiinum á laugardagskvöldð. Sem var auðvitað frekar fúlt. Það eru skemmtilegir gríslingar sem búa þar.. Það versta er samt að ég er búin að missa af tveimur leikfimistímum. Eins gott að ég verði búin að hósta þessu úr mér fyrir morgundaginn svo ég missi ekki af einum í viðbót!
*atsjú*

Afmælisbarn!

Sunnuskottið mitt á afmæli í dag!!
Hún Sunna Kristín guðdóttir mín, klárasta og duglegasta og skemmtilegasta og fallegasta of yndislegasta stelpa í heimi, er fjögurra ára í dag. Til hamingju með afmælið litla skottið hennar Heiðusinnar :o)

p.s. ég ætlaði sko að setja rosa fína mynd af henni hérna en þetta blogger drasl vill ekki hafa það. Þið verðið bara að skoða myndirnar af henni í myndaalbúminu. Þær eru sko ekki fáar :o)

Stiklað

á stóru..

– Í þessum töluðu orðum er ég í viðtali hjá Ella Feita. Ég er nefnilega svo gömul og reynd. Gamall og reyndur Fasisti. það er stuð. Þurfti m.a. að rifja upp busavígsluna mína. Það er alveg stórkostleg minning.. líka busavígslurnar sem ég var með í að skipuleggja sem heldri nemi. Finn ennþá ilminn og ilinn af gærunni, bragðið af ölinu sem kneifað var úr horni.. heyri drumbusláttinn og rímurnar óma í Ketillaugarfjallinu…
– Við gerðum tilraun til að horfa á bíómynd í gærkvöldi. Miami Vice með þeim Jamie Foxx og Colin Farrel. Við gáfumst fljótlega upp. Í þessari mynd er ekki töluð enska. Í þessari mynd er talað eitthvað skringilegt tungumál sem einkennist af muldri og skammstöfunum. algjörlega öm.. aðeins að slaka á í kúlinu strákar.. aðeins.
– Við bökuðum aftur um helgina. Í þetta skiptið bananabrauð. Það var mjög gott. Er að spá í að skella því að uppskriftavefinn á eftir. Ef ég nenni.
– Gaman, gaman framundan. Ættarmót, Afmæli, Tónleikar, Flóttamannabúðir…

Döðlubrauð

Gómsætt með ískaldri mjólk

Á svona degi er algjört möst að baka eitthvað svakalega gott. Snjókoma og kalt úti.. þá jafnast ekkert á við glóðvolgt döðlubrauð beint úr ofninum. Játs, við bökuðum döðlubrauð og það var mjög ljúffengt. Þið getið skoðað uppskriftina hérna að neðan.. GEBBA GOTT!!

Þetta þarftu: 3 1/2 dl hveiti, 2 tsk lyftiduft, 1/2 tsk salt, 2 1/2 dl sykur, 2 1/2 dl saxaðar döðlur, 2 1/2 dl grófsaxaðar valhnetur, 2 egg, 2 dl léttmjólk, 3 msk matarolía, 1 tsk vanilludropar

Svona geririðu: Blandið saman hveiti, lyftidufti, salti og sykri ásamt döðlunum og hnetunum. Hrærið saman (í annarri skál) eggjum, mjólk, olíu og vanilludropum með gaffli. Blandið svo öllu saman með sleif og setjið í smurt aflangt form. Bakið á neðstu rim við 180°C í uþb 45 mínútur.

Að lokum: Í veðri eins og í dag þá er eiginlega bara skylda að baka. Fyrstu snjókorn vetrarins að falla og kalt úti. Þetta er alveg tilvalið. Snúum okkur að bakstrinum.. Sko ég átti bara svona einnota form og setti þetta deig í tvö svoleiðis. Svo notaði ég líka fjörmjólk en ekki léttmjólk eins og er í uppskriftinni en það bíttar ekki skipti. Brauðið smakkaðist alveg sérdeilis prýðilega nýkomið úr ofninum. Gott með og án smjörs. Við skemmtum okkur líka mjög vel í myndatökunni :) HB.

Bakarinn að smakka með smjöri