Category Archives: brauð

Dúnmjúkar bollur

Þetta þarftu: 500gr hveiti, 1 gerbréf, 3 dl mjólk, 80gr smjörlíki (eða olía í staðinn), 1 msk sykur og smá salt.

Svona gerirðu: Bræðið smjörlíkið og setjið svo mjólkina saman við þegar það er bráðið. Setjið þetta í skál og blandið gerinu, sykrinum og smá salti við. Hellið hveiti smám saman útí og hrærið og hnoðið síðan þar til deigið er orðið mjúkt og lipurt :) Látið hefast í ca 15mín (ekki nauðsynlegt samt ef þið eruð að flýta ykkur). Búið til svona 10-20 bollur úr deiginu. Hitið ofninn í 175°C og latið bollurnar hefast á smurðrið plötu undir viskastykki á meðan. Bakið í svona 8-10mín.

Að lokum: Þetta er uppskrift frá Kollu systur. Ég fæ svona bollur oft hjá henni því hún er svo dugleg að baka handa okkur öllum hinum. Ég baka svona bollur helst í morgunmat á Sunnudögum og fæ mér þá tebolla með og set ost og marmelaði á bollurnar. Það er algjör snilld, sérstaklega þegar Kolla mín bakar þær. HB

Massabrauð Kollu sætu

Þetta þarftu: Fimmsinnum 250ml hveiti, 5dl vatn (volgt), eitt gerbréf, góðan slump af olíu, smá salt og 1msk sykur.

Svona gerirðu: Setjið volga vatnið í skál og setjið gerið út í það ásamt sykrinum og saltinu. Þetta er hrært saman þangað til gerið leysist upp. Svo skal hveitinu hrært út í smám saman. Takið svo deigið úr skálinni og hnoðið það þangað til það verður æðislegt. Þvínæst er það látið hefast í amk 45mín. Þá mótið þið tvö brauð úr deiginu og látið hefast aftur í svona hálftíma. Svo er þetta bakað við 180°C-200°C þangað til það fer að dekkjast.

Að lokum: Þetta er alveg massa brauð.. og þau eru tvö.. brauðin, ha? súkkulöðin?? nei, tvíburarnir! hahahah.. allavega.. Ég baka þetta brauð eiginlega alltaf þegar ég baka brauð með mat (kjúklingasúpunni, pestókjúlingnum og allskonar). Einusinni bakaði ég þetta líka öðruvísi en þá setti ég sólþurrkaða tómata í deigið og úr varð svo gott tómatbrauð að ein í saumaklúbbnum hélt að það væri frá Jóa Fel.. iss nei, þetta er sko frá Kollu sætu !!

Fyrirtaks morgunbollur

Þetta þarftu: 13dl hveiti, 3dl hveitiklíð, 1msk sykur, 1tsk salt, 1bréf þurrger, 6dl volg undanrenna, 2msk matarolía

Svona gerirðu: Blandið saman þurrefnum og geri (skiljið samt soldið eftir af hveitinu til að hnoða upp seinna). Hellið olíu og undanrennu útí deigið (gerið svona holu fyrst) og hrærið vel með sleif (deigið má vera soldið blautt). Látið svo hefast í hálftíma á hlýjum stað. Hnoðið svo afgangshveitinu í ef þess þarf. Mótið tvær jafnlangar lengjur úr deiginu og skiptið hvorri lengju í 10 jafnstóra bita sem þið mótið úr bollur og raðið á bökunarplötu. Látið hefast aftur, nú í 15-20 mínútur. Pennslið svo bollurnar með mjólk og skellið í ofninn, 200° í 15 mínútur.

Að lokum: Enn ein uppskriftin úr bókinni góðu (Af bestu lyst). Ég bakaði þetta í gær í hádegismatinn og úr varð sérlega vel heppnaður bakstur verð ég að segja :) Ég setti samt ekki hveitiklíð (það var ekki til í búðinni) svo ég setti bara heilhveiti í staðinn. Það var bara mjög gott. Borðuðum þetta með osti og jarðaberjasultu og það var æði. Í dag fékk ég mér svona bollu í hádeginu og viti menn, hún var ennþá mjúk og bragðaðist sérdeilis prýðilega með skinku, osti og tómötum.