Monthly Archives: August 2011

Pönnukökuveisla

Á laugardaginn bökuðum við pönnukökur í kaffinu. Hann Hrafn Tjörvi gjörsamlega elllskar pönnukökur og þessvegna bökum við þær oft! Hann er meira að segja farinn að læra uppskriftina! Hann er voðalega duglegur að hjálpa mömmu sinni að setja allt útí skálina og sér eiginlega um allt nema mjólkina eggið og smjörið. Duglegi bakaradrengurinn!

Hérna eru nokkrar myndir af pönnukökuveislunni og uppskriftin þar á eftir

ummmmmm delissíus!
Kolbrún Lilja fékk að smakka eina með smjöri
Bakarinn ánægður með afraksturinn
Bakaradengurinn duglegi

Þetta þarftu: 2 1/2 dl hveiti, 1/4 tsk salt, 1 tsk vanillusykur, 1/2 tsk lyftiduft, 1/2 tsk matarsódi, 2 egg, 3-4 dl mjólk, 25 gr smjör.

Svona gerirðu: Bræðið smjörið á pönnunni.  Þeytið saman eggin og vanillusykurinn og blandið svo mjólkinni saman við og smjörinu. Að lokum er þurra dótið sett útí smám saman á meðan hrært er svo ekki komi kekkir. Svo eru pönnukökurnar steiktar á pönnukökupönnu, helst einhverri vel notaðri með góðri sál 🙂

Að lokum: Mér finnst best að bræða smjörið á pönnunni en samt ekki við of mikinn hita svo það verði ekki mjög heitt. Svo hita ég alltaf mjólkina aðeins í öbbanum svo að smjörið storkni ekki í mjólkinni þegar ég blanda því saman. Svo bara þeyta massa vel svo þetta verði nú ekki kekkjótt. Ég helli svo alltaf líka umframdeigi af pönnunni aftur útí deigskálina svo pönnsurnar verði þunnar og góðar. Veit ekki hvað þetta eru margar pönnsur, en þetta er akkúrat passlegur skammtur fyrir okkur þrjú.. þarf líklega að bæta í þegar Kolbrún Lilja kemst á bragðið….

Reykjavíkurmaraþon 2011

Jæja, þá er ég búin aðskrá mig á hlaupastyrkur.is svo að hægt sé að heita á mig á laugardaginn eftir viku þegar ég ætla að hlaupa* 10km ásamt systkinum mínum og einhverjum afsprengjum þeirra.  Ef þið viljið heita á mig (sem ég efast ekki um að þið aleg iðið í skinninu að gera) þá skulið þið smella á linkinn fyrir neðan.

Við systkinin ætlum að hlaupa til styrktar Göngum saman. Rannsóknir á brjóstakrabbameini. Ástæðan fyrir því er sú að hún elsku mamma okkar stendur nú í hetjulegri baráttu við þennan alltof algenga sjúkdóm.

Endilega tékkið á þessu: http://hlaupastyrkur.is/hlaupid/keppandi?cid=2513 .. þetta verður rússssst!!!

*hlaupa = skokka, jafnvel skokka hægt, jafnvel skokka mjööög mjööööög hægt og jafnvel svo hægt að það borga sig jafnvel fyrir mig að skipta yfir í labb (sem ég jafnvel myndi þá gera) til þess að komast einhverntíma á leiðarenda, jafnvel.. en á leiðarenda kemst ég!!

Jógúrtbollurnar hennar tengdamömmu

Svo gómsætar!

Um helgina síðustu þá vorum við Kolla systir í þvílíku bökunarstuði og á laugardeginum ákváðum að baka eitthvað sem er bæði ótrúlega gott og auðvelt að grípa í þegar mann langar í ‘eitthvað’. Kolla ákvað að baka kanilsnúða og ég ákvað að baka þessar muffins. Þær áttu að vera með kvöldkaffinu á laugardeginum og svo til að narta í næstu daga. Það er skemmst frá því að segja að þetta kláraðist næstum allt á laugardagskvöldinu!

Þetta þarftu: 3 egg, 400gr sykur, 250gr smjörlíki lint, 600gr hveiti, 1/2 tsk natron, 1/2 tsk salt, 1 dós kaffijógúrt, 2msk heitt vatn, 2 tappar vanilludropar, 1 poki spænir

Svona gerirðu: Öllur draslinu blandað saman og sett í svona muffinsform. Bakað við 190°C þartil bollurnar eru orðnar ljósbrúnar að ofan.

Að lokum: Þetta er uppskrift frá tengdamömmu minni henni Konný. Hún bakaði þetta oft þegar Pétur og systkini hans voru yngri. Pétri finnst þetta bara það besta í heimi! Uppskriftin fyllir alveg stóra macintosh dollu og það er ekkert betra en að stelast í hana. Við bökum þetta stundum við sérstök tækifæri og klárast þá skammturinn ansi fljótt!!  Ég hef sett svona síríus konsum súkkulaðibita í staðinn fyrir spæni stundum og það er líka alveg rosalega gott. Ég prófaði í þetta skiptið að setja formin í svona sérstaka möffins ofnplöru og það var ferlega þægilegt því þá fletjast þær ekkert út og verða mjög lögulegar. Algjör skylda að drekka ískalda mjólk með!!