Eplakaka

Bakaði þessa eplaköku í dag. Þetta er auðvelda eplakakan hennar Kollu. Og þar sem við áttum einmitt þrjú epli sem voru við það að skemmast þá ákvað ég að skella í þessa og heppnaðist hún svona líka vel! Akkúrat það sem þurfti til að ná mér aðeins upp eftir vonbrigðin yfir því að Íslendingar létu tækifærið sér úr greipum ganga að kjósa sér nýjan forseta.. þeir kusu sér gamlan og súran.. þá er gott að fá sér sæta eplaköku.

Ilmandi eplakaka…..

Þetta þarftu: 300 gr hveiti, 300 gr sykur, 300 gr smjör, 3 egg, 3 epli, 1 1/2 tsk lyftiduft

Svona gerirðu: Hrærðu saman egg og sykur. smjörið er brætt og bætt útí, svo hveitið og lyftiduftið. Skellið deiginu í smjörað form. Skerið epli í litla báta og skrællið og raðið ofan á deigið. Þvínæst stráið þið kanil yfir. Svo inn í ofn í svona þrjú korter.

Að lokum: Þetta er auðvelda kakan því það er svo auðvelt að muna hvað er í henni. þrennt af öllu! og maður á líka eiginlega alltaf í hana. Það er algjört overkill að setja kanilsykur yfir hana því það er feikinóg af sykri í henni. Alveg nóg að sáldra bara kanildufti. Svo auðvitað borðar maður rjóma með.. mér finnst líka overkill að borða ís með henni því hún er sæt og verður of sæt með ís.. Frábær sunnudagskaka!

 

2 thoughts on “Eplakaka

  1. Bökuðum þessa um daginn mjög góð, var reyndar rosalega þykk! Þurfti mikinn tíma í ofninum og var aðeins of dökk að utan. En smakkaðist vel, hugsa að ég setji næst í tvö form, bara grunn form og epli á báða botna!

  2. Jamm, ég baka hana í svona stærra hringformi sem er líka frekar djúpt .. það er fínt að minnka uppskriftina um helming og setja í einn minna hringform, (þá er 150-150-150 og eitt egg og bara eins og maður vill af eplum) Já eða bara gera tvær kökur 😉

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *