Flugu”frelsari”

Á þessum tíma ársins gerist það iðulega að stórar og feitar flugur kíkja inn um opna glugga til þess að hlýja sér. Ekki furða, það er að kólna og þær alveg að fara að geispa golunni. Þær leita á hlýrri staði. Mennirnir gera þetta líka. Eldra fólk flykkist til kanarí þegar veður fer kólnandi. Í stórum stíl. Í massavís. Mér finnst þetta ekkert sérstaklega skemmtilegur siður, allavega ekki hjá flugunum. Mér er ekkert vel við flugur. Sérstaklega ekki þegar þær eru hávaðasamar og upptjúnaðar í andaslitrunum eins og þessa dagana. Þær eru ekki velkomnar í mínum húsakynnum. Þessvegna fer ég á veiðar þegar þær birtast. Ég verð flugufrelsari, vopnuð glasi og blaði, sem fangar flugur og veitir þeim frelsi sitt aftur úti á svölum. Í dag er ekki búið að ganga sérlega vel. Ég er búin að eiga tvo misheppnaða flugufrelsunar veiðileiðangra í dag. Í öðru tilfellinu var flugan svo svakalega taugaveikluð að hún óvart kramdist þegar ég ætlaði að smeygja blaðinu undir glasið. Algjört slys. Hitt tilfellið flokkast undir flugufrelsara gáleysi. flugan, sem var hin þægasta, drukknaði óvart í mjólkurdropa sem var í botninum á glasinu.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *