All posts by Heiða Björk
Afmæli
Ég er í pásu. Kaffipásu. Var að enda við að súpa seinasta dropann (þennan tíunda) úr kaffibollanum. Fékk ljómandi gott kaffi úr kaffivél sem malar baunirnar og hellir uppá einn bolla í einu. Það er bragð af þessu kaffi, ólíkt kaffinu sem fæst í kaffiteríunni. Það er vont.
Ætlaði reyndar ekkert að spjalla við ykkur um kaffi. Ætlaði að segja frá stórskemmtilegri helginni sem leið. Þá var afmælishátíð okkar Péturs haldin með pompi og pragt í 12. skiptið. Fór hún sérlega vel fram í alla staði. Hátíðin var sett á föstudags eftirmiðdaginn og stóð linnulaust þangað til í morgun þegar hversdagsleikinn tók við. Á laugardaginn borðuðum við hádegismat á Kaffi París og kvöldmatinn á Tapas barnum. Þar fengum við sérlega góðan 8 rétta kvöldverð sem var svo góður að það er bara lygilegt. Boggi er snillingur.. Á sunnudaginn var ekki farið út úr húsi, heldur legið í algjörri afslöppun og notalegheitum. Lambahryggur var snæddur um kvöldið, þessi týpíski með kartöflum og brúnni sósu. Ís í eftirmat og eftir-eftirmat.
Auðvitað snérist þessi afmælishátíð ekki eingöngu um mat. Við gerðum líka ýmislegt annað en að borða. En þar sem þetta er einkahátíð og engum öðrum boðið kemur ykkur það ekki við. það var bara svo langt síðan ég borðaði svona mikið af góðum mat að ég mátti til með að segja frá því.
Jæja, best að halda áfram að lesa. Pásan er hér með búin.
Til hamingju!!
Eg er …

Stjórnmálaþurs
Þú ert vanaföst, tilfinningarík félagsvera.
Í margmenni á stjórnmálaþursinn oftar en ekki orðið. Ef einhver hyggst grípa fram í fyrir honum talar hann bara hærra – og það virkar. Hann hefur sterkar skoðanir á flestu, hvort sem um er að ræða fjárlagahalla ríkisins eða það hvort SS eða Goða pylsur eru betri, og gerir hvað hann getur til að þröngva þeim upp á aðra. Stjórnmálaþursinn þarf að passa sig þegar hann er í nærveru þeirra sem eru ósammála honum því blóðþrýstingurinn á það til að rjúka upp.
Stjórnmálaþursinn vantar ekki nýja skó fyrr en það er komið gat á þá gömlu… sem skósmiðurinn segist ekki geta gert við. Stjórnmálaþursinn veit hvar Guðsteinn er með verslun.
… Hvað eruð þið ??
Hver er þessi Helgi??
Kemur þessi Helgi enn og aftur askvaðandi.. þessi verður örugglega skemmtilegur!
Byrjum hann á því að fara í ræktina strax eftir vinnu/skóla og gefst þá loksins tækifæri til að prófa nýju græjurnar mínar sem ég keypti mér hérna um daginn. Hóstinn er á undanhaldi og ég held ég meiki smá workout, vonandi.. Svo ætlum við að elda okkur sérdeilis prýðilegan fiskrétt í kvöldmatinn. Á morgun ætla ég að fara í skólann á meðan Pési fer í vinnuna og svo verður haldið í afmælisgjafaverslunarleiðangur til að kaupa afmælisgjöf handa Sunnu Kristínu sem heldur uppá þriggja ára afmælið sitt á Sunnudaginn. Þar verður, samkvæmt áreiðanlegum heimildum, boðið uppá súkkulaðiköku með nammi á, að sjálfsögðu!
Áður en það gerist ætlar Pési að sýna snilldar pool takta á móti Ismari á laugardagskvöldið á meðan ég geri eitthvað sérlega skemmtilegt á meðan.. (uppástungur vel þegnar). Þess má geta að foreldrar mínir og föngulegur litlbróðir minn ætla að vera í bænum á meðan á þessum Helga stendur og vonast ég eftir að hitta þau eitthvað. Kemur í ljós. Allavega í afmælisveislunni 😀
Góðan Helga!
(beðist er afsökunar á sérlega slæmum fimmaurum í nýlesinni færslu, höfundur kennir um sérlega miklu magni af sérlega sterku kaffi.. sérlega)
Stiklur
Góðan dag og velkomin í Stiklur síðustu daga.
- Ég keypti mér nýja íþróttaskó og íþróttabuxur. Rosalega flott, var mjög nauðsynlegt að eignast þar sem gömlu skórnir meiða mig og gömlu buxurnar eru með gati í klofinu og næstum gegnsæjar. Ég er samt enn með bömmer yfir því sem ég borgaði fyrir.. ef við lýtum á björtu hliðarnar þá var þetta staðgreitt og visa-djöfullinn kom hvergi nærri!
- Hittum Möttu og Hjálmar í drykk á Tapas barnum.
- Kolla bakaði handa okkur vöfflur og bauð okkur í kaffi. Það var kærkomið enda langt síðan síðast. Þar hitti ég öll systkini mín, nema það yngsta..
- Fórum út að borða á TGI Fridays með Þorgrími og Chloe og fengum fínasta mat sem kom á óvart.
- Gerði lista yfir jólagjafainnkaup. Er búin að ákveða hverjum ég ætla að gefa jólagjöf og hvað það á að vera. Nú er bara að fara og versla !
- Fórum í bíó með föngulegum systrum mínum tveimur, föngulegum stórabróður mínum og hans fríðu frú.. sáum In her shoes sem var bara ágætis ræma.
- Lenti í miklum umræðum um hvaða leikarar mér finnst vera flottir og hverjir mér finnst ekki flottir. Komst að því að ég er ekki hrifin af fullkomnu útliti eða mjög fíngerðum karlmönnum. Nema þeir hafi einstaklega fallegt bros.. the smile says it all 🙂
- Keypti óvart pepsi í staðinn fyrir pepsi max. Drakk tvö glös áður en Pétur fattaði hvað var í gangi. Þvílík martröð.. ojjj
- Ég held ég sé loksins að losna við kvefið! Þetta er búið að vera ansi pirrandi, hef varla gert annað en að hósta og snýta mér síðustu rúmlega viku.
Þá er ekki fleira í þættinum í kvöld, veriði sæl.
Af kvefi og hvæsi
já góðir hálsar, ég er búin að vera með flensu síðustu daga. Sérstaklega leiðinlega hálsbólgu og hósta og hitaflökt. Búin að vera hálf mállaus þar sem eiginlega ekkert hefur heyrst í mér. Það sem heyrirst er á fáránlega háum tóni. Þetta er pirrandi ástand. Nú virðist sem flensan sé að færa sig á milli öndunarfæra, frá hálsi yfir í nef. Vaknaði stífluð í morgun en sem betur fer er stíflan farin núna. Vonandi á ég ekki eftir að verða eins langt leidd og konan hérna á myndinni, sem ég verð þó að hrósa fyrir að vera svona úrræðagóð. Það er alveg ferlegt að vanta snýtupappír þegar maður er með nefrennsli.. Ég hef ekkert farið í ræktina alla vikuna sem er grautfúlt. Á erfitt með að ímynda mér einhver afrek þar þegar ég get ekki farið með ruslið án þess að fá hóstakast. Kem öflug til baka í næstu viku því þá ætlar mér að verða batnað.
Annars er allt fínt að frétta. Erum bara búin að vera frekar róleg eftir síðustu helgi sem var algjört ævintýr. Skruppum í bíó í gær þar sem ég var orðin annsi pirruð á því að hanga inni. Sáum Kiss kiss bang bang í Kringlubíó. Alveg mögnuð mynd. Mjög skemmtileg og fyndin. Robert Downey Jr. er mjög skemmtielgur í henni og Val Kilmer líka. Myndin er sérlega vel skrifuð og langt frá því að vera dæmigerð eða fyrirsjáanleg. Húmorinn er líka ferskur og hressandi. Fáar klisjur hér á ferð.
Slæmar fréttir…
..ég held ég sé að fá kvef 🙁
On the road again..
Er að pakka fyrir ferðina á morgun með Bítlana á shuffle (happiness, is a warm gun, úúúúú.. ó je). Ég er að deyja úr spenningi. Sumum þætti kanski skrítið að ég væri svona spennt fyrir að fara á stað sem ég er búin að vera með annan fótinn á og oft báða alla ævi. Var síðast fyrir austan mánaðarmótin ágúst-september svo það er ekkert rosa langt síðan ég var þar síðast. Samt er ég með fiðrildi í maganum yfir þessari ferð enda er ég að fara að gera svo svaka margt skemmtilegt! Það er ekki spáð neinu svaka fínu veðri. Snjókoma/slydda/rigning, hiti við frostmark og rok. Ekkert slakandi ferðaveður. Issssssssss ég nenni ekki að hafa áhyggjur af því. Hef örugglega upplifað það verra. Erum allavega á glænýjum vetrardekkjum í þetta skiptið so We’ve got the upper hand, so to speak ;o)
Byrja morgundaginn á því að skutla Pésa í vinnuna, klára svo að pakka, fer svo í ræktina klukkan 10 og svo ætla ég að fara í búð og kaupa belti handa Pésa (hann er orðinn svo mikill mjóni að gamla beltið hans sem hann er búin að eiga í næstum áratug er hætt að virka, og ekki viljum við að hann missi buxurnar niðrum sig í miðjum ræl á ballinu!) Svo, fyrst ég er á búðarrápi, ætla ég að finna mér kanski fínan hlýrabol til að vera í og kanski hálsmen líka og eyrnalokka og nýtt púður og augnskugga og algjörtpæjugloss og og og.. nei nei, það verður ekkert svoleiðis.. ekkert svoleiðis sko.. hmm.. ha?

