All posts by ofurpesi

Franski lambakjötspottrétturinn

Þetta þarftu: 1 kg lambaframhryggjarsneiðar, helst nokkuð þykkar, nýmalaður pipar, salt, 1 msk olía, 25 gr smjör, 100 gr beikon, 1 laukur, saxaður smátt, 1-2 hvítlauksgeirar, 3-4 gulrætur, 1 rósmaríngrein, 1 dós (250 ml) tómatmauk (puré), 250 ml rauðvín, má vera óáfengt, vatn eftir þörfum, 500 gr kartöflur

Svona gerirðu: Ofninn hitaður í 160°C. Hver framhryggjarsneið skorin í 2-3 bita og þeir kryddaðir með pipar og salti. Olía og smjör hitað á pönnu og kjötið brúnað vel. Tekið af pönnunni og sett í stórt, eldfast mót. Beikonið skorið í bita, sett á pönnuna og steikt í 2-3 mínútur. Þá er lauk, hvítlauk, gulrótum og rósmaríni bætt á pönnuna og það látið krauma áfram í nokkrar mínútur. Tómatmauki og rauðvíni hrært saman við og síðan er öllu saman hellt yfir kjötið, þétt lok lagt yfir fatið eða álpappír breiddur vel yfir, og það sett í ofninn. Látið malla í um eina og hálfa klukkustund. Svolitlu vatni bætt við ef þarf en vökvinn á aldrei að fljóta yfir kjötið og sósan á að þykkna af sjálfu sér.  Kartöflurnar afhýddar og skornar í bita. Fatið tekið úr ofninum, rósmaríngreinin veidd upp úr, kartöflunum dreift jafnt á milli kjötbitanna, fatið sett aftur í ofninn og látið malla í um 30-40 mín í viðbót, eða þar til kartöflurnar eru meyrar.

Að lokum: Þetta er algjörlega geeeeðveikur réttur, hefur ósjaldan verið eldaður og er hreinlega guðdómlegur með góðu rauðvíni, góðu brauði, við kertaljós á köldu vetrarkvöldi.

 

 

Skriðinn úr hýði

Jæja gott fólk. Það er nú langt um liðið síðan ég hef hent inn færslu á Kúbbann en hann er einmitt kominn á nýjan stað sökum þess að það var einhver að skemma hann fyrir okkur. Við skelltum okkur með hann til Davíðs og Golíats og honum virðist líða vel þar.

Lífið hjá okkur gengur sinn vanagang, Hrafn er í sumarfríi og er heima með mömmu sinni og litlu systir og líkar það vel. Ég tek nánast ekkert sumarfrí, kannski 1 – 2 daga en fer í feðraorlof í september og verð út október. Það verður ljúft að fá að eyða tíma með “litlu” stelpunni minni.

Þann 22. ágúst verður stór stund í lífi Hrafns Tjörva og foreldranna því þá byrjar hann í Brákarborg. Við höfum verið duglega að labba framhjá leikskólanum og segja honum að þarna sé Brákarborg, leikskólinn hans. Svo fer hann að sjálfsögðu í aðlögun og verður spennandi að sjá hvernig hann tekst á við þetta. Svo bara krossum við putta og vonum að leikskólakennarar fari ekki í verkfall, sem er einmitt áætlað þann 22. ágúst.

Í gær var svo hin árlega pönnukökuferð á Þingvelli og fórum við ásamt Kollu & CO og Hrafnhildi & CO á Þingvelli og borðuðum pönnukökur í blíðskaparveðri og röltum svo um svæðið. Það var þreytt fjölskylda sem skilaði sér heim um 18:30

Já…svo er ég byrjaður í nýrri vinnu. Er kominn til Sensa og vinn þar sem Microsoft kall. Gæti ekki verið betra 🙂

Læt þetta heita gott í bili…

Undur og stórmerki

Kallinn ekki dauður enn. Hef bara ekki gefið mér neinn tíma til að sinna þessu bloggi. Haft nóg annað að gera einhvernveginn. Kannski að Facebook steli öllum þessum tíma sem gæti farið í bloggið. Fokkins facebook. Tímaþjófur…

Annars er ég hress. Sama á við um alla fjölskyldumeðlimi. Hrafn er síkátur sem er magnað miðað við allt eyrnastandið. Eigum tíma á miðvikudaginn hjá HNE til að meta stöðuna. Vinstra rörið er dottið úr þannig að við þurfum nýtt. Stemmning. Eða ekki.

Skelltum okkur í bústað með Kollu & co, Hrafnhildi & co og þar var stuð og mikið fjör. Horfðum á Ítalíu skíta uppá bak og borðuðum fullt af góðum mat.
Fórum niður að Skorrdalsvatni þar sem Hrafn Tjörvi fékk að henda steinum í vatnið og fannst honum það mergjað stuð.

Nú er mánudagur og grámyglulegur hversdagsleikinn tekinn við með fótbolta í bland. Bið ykkur vel að lifa…

Þá er það ákveðið…

Fékk tölvupóst áðan sem hljóðar svo…

Hæ Pétur.

Okkur hefur borist beiðni um að eyða reikningnum þínum varanlega út. Reikningur þinn er nú óvirkur á síðunni og mun verður eytt út fyrir fullt og allt innan 14 daga.

Ef þú vilt ekki láta eyða reikningnum þínum skaltu smella á eftirfarandi hlekk til að draga til baka beiðnina.

Takk,
Facebook teymið

Það líður um mig yndisleg frelsistilfinning! Skora á alla sem eru að hugsa um þetta að láta slag standa 🙂