Category Archives: almennt

Skriðinn úr hýði

Jæja gott fólk. Það er nú langt um liðið síðan ég hef hent inn færslu á Kúbbann en hann er einmitt kominn á nýjan stað sökum þess að það var einhver að skemma hann fyrir okkur. Við skelltum okkur með hann til Davíðs og Golíats og honum virðist líða vel þar.

Lífið hjá okkur gengur sinn vanagang, Hrafn er í sumarfríi og er heima með mömmu sinni og litlu systir og líkar það vel. Ég tek nánast ekkert sumarfrí, kannski 1 – 2 daga en fer í feðraorlof í september og verð út október. Það verður ljúft að fá að eyða tíma með “litlu” stelpunni minni.

Þann 22. ágúst verður stór stund í lífi Hrafns Tjörva og foreldranna því þá byrjar hann í Brákarborg. Við höfum verið duglega að labba framhjá leikskólanum og segja honum að þarna sé Brákarborg, leikskólinn hans. Svo fer hann að sjálfsögðu í aðlögun og verður spennandi að sjá hvernig hann tekst á við þetta. Svo bara krossum við putta og vonum að leikskólakennarar fari ekki í verkfall, sem er einmitt áætlað þann 22. ágúst.

Í gær var svo hin árlega pönnukökuferð á Þingvelli og fórum við ásamt Kollu & CO og Hrafnhildi & CO á Þingvelli og borðuðum pönnukökur í blíðskaparveðri og röltum svo um svæðið. Það var þreytt fjölskylda sem skilaði sér heim um 18:30

Já…svo er ég byrjaður í nýrri vinnu. Er kominn til Sensa og vinn þar sem Microsoft kall. Gæti ekki verið betra 🙂

Læt þetta heita gott í bili…

Heilsubitakökur

Þetta þarftu: 240gr smjör mjúkt, 200gr hrásykur, 2 stór egg, 140gr hnetusmjör helst ósætt, 3/4 dl mjólk, 100gr haframjöl, 50gr hveitiklíð, 60gr sesamfræ, 60gr sólblómafræ, 100gr salthnetur, 100gr pecanhnetur, 100gr valhnetur, 200gr rúsínur, 1/4 tsk engifer, 1 msk kanill, 3/4 tsk salt, 1 tsk lyftiduft, 150gr heilhveiti.

Svona gerirðu: Hrærðu vel saman smjörið og sykurinn bættu svo eggjunum saman við og hrærðu því vel saman. Svo bætirðu í hnetusmjörinu og mjólkinni og hræri það allt saman. Að lokum hrærirðu öll þurrefnin hnetur og frædótið saman við og hræra allt vel saman. Setur kökurnar plötu með bökunarpappír með tveimur matskeiðum (mjög klístrað deig). Á eina plötu passa 9 kökur  Hitar ofninn 180°C og bakar í 15-18 mínútur.

Svo mikið gúmmelaði

Að lokum: Þessa uppskrift má alveg útfæra að smekk hvers og eins. Fyrstu 5 atriðin eru algjör möst og má ekki breyta.Líka kryddið allt og heilhveitið. Allt sem er skáletrað, semsagt hneturnar og allt frædótið og það, má bara vera eins og hver og einn vill svo lengi sem það vigtar 770gr. Mér finnst tildæmis alveg ómissandi að hafa súkkulaði (að sjálfsögðu) og í staðinn fyrir að setja 200gr af rúsínum set ég 100 og 100 rúsínur og súkkulaði (dökkt og gott).. svo er tildæmis hægt að setja graskersfræ og allskonar öðruvísi hnetur og þurrkaða ávexti. Þetta eru rosalega saðsamar kökur og ein kaka er næstum heil máltíð.. að minnsta kosti gott ámillimála nart. Mjög sniðugt að frysta eina og eina og grípa svo með sér í veskið 🙂