Category Archives: uppskriftir

Kókoskúlurnar hennar mömmu

Þegar ég var polli, þá bjó mamma stundum til kókoskúlur fyrir jólin. Í minningunni er þetta ein mesta dásemd sem fór inn fyrir mínar varir á þeim tíma 🙂 En hérna á eftir kemur uppskriftin:

Þetta þarftu:

3 dl haframjöl
2 dl sykur
2 msk kakó
örlítið af vanilludropum
1 msk púðursykur
2 msk vanillusykur
1 msk kalt kaffi
100 gr smjörlíki

Svona gerirðu:

sykur og smjörlíki brætt í potti
kælt og blandað saman við efnið
svo gerðar kúlur úr og velt upp úr kókosmjöli. Þær eiga að vera pínu blautar.

Settar í frysti og laumast í þegar enginn sér til 🙂

imagehandler

Jóla súkkulaðibitasmákökur

Set þessa uppskrift hingað inn fyrir hann Tedda mág minn. Hann alveg elskar þessar smákökur og ætlar að prófa að baka þær þessi jól. Vona samt að hann komi í heimsókn og fái sér allavega eina hjá mér líka.

mmmm nýbökuð
mmmm nýbökuð

Þetta þarftu: 1/2 bolli lint smjör, 1/2 bolli sykur, 1/2 bolli púðursykur, 1 egg, 1 1/2 bolli hveiti, 1/2 bolli kókosmjöl, 1/4 tsk matarsódi, smá salt, 200 gr síríus konsum suðusúkkulaði saxað í bita.

Svona geririðu: Hrærir saman sykur , púðursykur og smjör, vel og vandlega þangað til það er létt og ljós. Þá seturðu eggið útí  og hrærir meira. Því næst fer hveitið og matarsódinn og saltið út í og að síðustu kókosmjölið og súkkulaðið. Hrærið allt vel saman. Bökunarpappír settur á plötu og búnar til litlar kúlur/klessur úr deiginu og raðað á plötuna og bakað við meðalhita (200°) í 8-10 mínútur eða þangað til þær eru orðnar ljósbrúnar.

Að lokum: Þessar kökur eru það fyrsta sem er bakað fyrir hver jól á öllum heimilum í minni fjölskyldu. Lyktin af þeim eru lyktin af jólunum á mínu heimili. Þegar ég var lítil og öll systkini mín bjuggu heima hjá mömmu og pabba þá bakaði mamma allavega fjórfalda uppskrift! við bökum svona tvöfalda núna.. það er af sem áður var! Það er algjör skylda að ýta svolítið niður á kökurnar með gaffli áður en þær eru bakaðar svo það komi svona gaffalaför í þær. Mamma mín gerði það alltaf. og já.. þær fletjast svolítið út við bakstur þannig að þarf smá bil á milli þeirra.

Þarna er ég ólétt af Hrafni Tjörva að gæða mér á nýbakaðri súkkulaðibitasmáköku, jólin 2008 :)
Þarna er ég ólétt af Hrafni Tjörva að gæða mér á nýbakaðri súkkulaðibitasmáköku, jólin 2008 🙂

 

 

Klessumöffins

Þessar verða sunnudagssyndin í dag. Ég bakaði þessar kökur fyrst handa systkinum mínum þegar ég bauð þeim til mín í hádegismat á afmælisdaginn minn. Langaði til að gefa þeim eitthvað æðislega gott og fallegt, en auðvelt og fljótlegt. Þetta var akkúrat það.

IMG_2675

Þetta þarftu: 100g smjör, 2 egg, 3 dl sykur, 1,5 dl hveiti, 1 dl kakó, 1 msk vanillusykur, 1/4 tsk lyftiduft. Rjómi og jarðaber, helst íslensk.

Svona geririðu: Bræðið smjörið. Blandið öllum þurrefninum saman og hrærið smjörinu svo saman við. Eggjunum er hrært saman við í lokin. Skiptið deiginu í 12 muffinsform og bakið við 175°C í 12-15 mínútur

Að lokum: Þetta verður ekki auðveldara. Ég sett formin í svona möffinsbökunarplötu sem ég keypti mér í Kokku. Þá verða kökurnar svo flottar. Mér finnst reyndar svolítið erfitt að taka kökurnar uppúr þegar þær eru tilbúnar því þær eru svo svaka mjúkar. Svo lætur maður þær kólna aðeins og setur rjómaslettu ofaná þær og jarðaber. Þá eru þær bara fullkomnar… Uppskriftin er fengin frá ljúfmeti og lekkerheitum (sjá link undir matarblogg)

 

 

Dúnmjúkar bollur

Þetta þarftu: 500gr hveiti, 1 gerbréf, 3 dl mjólk, 80gr smjörlíki (eða olía í staðinn), 1 msk sykur og smá salt.

Svona gerirðu: Bræðið smjörlíkið og setjið svo mjólkina saman við þegar það er bráðið. Setjið þetta í skál og blandið gerinu, sykrinum og smá salti við. Hellið hveiti smám saman útí og hrærið og hnoðið síðan þar til deigið er orðið mjúkt og lipurt :) Látið hefast í ca 15mín (ekki nauðsynlegt samt ef þið eruð að flýta ykkur). Búið til svona 10-20 bollur úr deiginu. Hitið ofninn í 175°C og latið bollurnar hefast á smurðrið plötu undir viskastykki á meðan. Bakið í svona 8-10mín.

Að lokum: Þetta er uppskrift frá Kollu systur. Ég fæ svona bollur oft hjá henni því hún er svo dugleg að baka handa okkur öllum hinum. Ég baka svona bollur helst í morgunmat á Sunnudögum og fæ mér þá tebolla með og set ost og marmelaði á bollurnar. Það er algjör snilld, sérstaklega þegar Kolla mín bakar þær. HB

Mílanó kjúklingur

Þetta þarftu: 600-700 gr kjúklingur, nýmalaður pipar, salt, 2 brauðsneiðar, 1 sítróna, 4 msk nýrifinn parmesanostur, 1 tsk þurrkað óreganó, 1 egg, ólífuolía, 50 gr smjör, 4-5 velþroskaðir tómatar skornir í bita.

Svona gerirðu: Leggðu bringurnar á bretti og legðu lófann á og skerðu hana í tvennt á þykktina. Leggðu yfir þær plast og berðu þær svolítið tildæmis með pönnu eða kökukefli aðeins til að þynna þær. Kryddaðu bringurnar með salti og pipar. Settu brauðið í matvinnsluvél ásamt rifnum berkinum af sitrónunni, parmesanostinum og óreganóinu og láttu ganga þar til komin er fín mylnsna. Sláðu eggið og velltu bringunum fyrst upp úr egginu svo uppúr mylsnunni. Hitaðu olíuna á stórri pönnu og steiktu bringurnar við meðalhita í 3-4 mínútur á hvorri hlið. Taktu þær svo af pönnunni og haltu þeim heitum. Bættu smjörinu á pönnuna og síðan tómötunum og safanum úr sítrónunni og láttu krauma rösklega í 4-5 mínútur. Saltaðu og pipraðu eftir smekk. Skelltu svo bringunum í fat og heltu tómatgumsinu yfir.

Að lokum: Í uppskriftinni (sem er að finna í hinni stórskemmtilegu bókMaturinn hennar Nönnu eftir Nönnu Rögnvalds) er talað um að hafa kapers með í sósunni, 1 tsk. En ég hef alltaf sleppt því.. nenni ekki að eiga einhvern afgang af kapers sem ég nota aldrei. Með þessu hef ég svo haft kartöflumús bragðbætta með slatta af parmesan osti og sítrónusafa og salti og pipar.. og auðvitað smá smjöri. Næst er ég samt að hugsa um að gera svolítið meira af tómatgumsinu og sjóða spaghetti með.. og jafnvel setja smá ólífur (ragnar grímsson) í gumsið. Þetta er ótrúlega bragðgóður réttur, alveg mega mongó..

Kreólakjúklingur

Þetta þarftu: 1/2 dl hveiti, 2 msk sætt paprikuduft, saltogpipar, olía til steikingar, 1200gr kjúklingabitar, 2 msk smjör, 2 grænar eða rauðar paprikur, 1 stór laukur, 1 dl steinselja söxuð, 2 hvítlaukrif, 2 tsk karrý, 1/2 tsk múskat, 1 dós tómatar, 1 dl kjúklingasoð, 3/4 dl rúsínur dökkar eða ljósar, 1 dl ristaðar og saxaðar möndlur.

Svona gerirðu:  Hitið ofninn í 180°C. Blandið hveiti, paprikudufti, salti og pipar saman í poka og setjið svo kjúklingabitana ofan í pokann og hristið vel saman. Hitið olíu á pönnu og brúnið kjúklingabitana vel á báðum hliðum og raðið svo í eldfast mót. Setjið smjörið á pönnuna og steikið lauk og papriku við vægan hita svo það verði meyrt í sirka 5 mínútur. Setjið því næst hvítlaukinn og steinseljuna útí ásamt karrýi og múskati og blandið vel á pönnunni. Svo er tómtunum, kjúklingasoðinu og rúsínunum bætt við og látið malla í smá stund. Þessu er svo öllu hellt yfir kjúklinginn og skelllt inn í ofninn í 40-50 mínútur. Möndlurnar eru saxaðar og ristaðar á pönnu og dreift yfir kjúklinginn þegar hann er kominn út úr ofninum!

Kjúklingurinn á kafi í gumsi og á leiðinni inní ofninn
Kjúklingurinn á kafi í gumsi og á leiðinni inní ofninn
IMG_1760
Komið út úr ofninum og möndlurnar komnar yfir

Að lokum: Ég bar fram með þessu hrísgrjón og eflaust er gott að hafa nýbakað brauð og rauðvín. Öll fjölskyldan var mjög hrifin af þessum rétti. Ég notaði bara kjúklingaleggi því þeir eru vinsælastir hjá Hrafni mínum, svo gott að halda á og naga. Þetta rann ljúflega ofan í mannskapinn og verður pottþétt á borðum aftur! Og já.. þessi uppskrift er í Gestgjafablaðinu með bestu uppskriftum 2007.

Komið á diskinn minn!
Komið á diskinn minn!
Komið á diskinn hans Hrafns Tjörva
Komið á diskinn hans Hrafns Tjörva

 

 

Pollo alla Romana

Eldaði svo dæmalaust dásamlegt í kvöld! Varð bara að skella því hingað inn á meðan ég man! Eldið þetta, þetta er mjöööög ljúffengt!

Þetta þarftu: 1 stór kjúklingur, hlutaður niður í 8 hluta, ólífuolía, 100 gr sveppir, helst litlir, 1 lítill laukur skorinn í sneiðar, 2 hvítlauksgeirar, saxaðir, 1/2 græn paprika, 1/2 rauð paprika, 1/2 græn paprika, tjoppaðar í bita, 1 dós tómatar, saxaðir, 300 ml kjúklingasoð, 200 ml hvítvín, pipar og salt, ferskar kryddjurtir, td rósmarín eða/og basilíka, 2-3 msk söxuð steinselja.

Kjúklingurninn kominn í 8 glæsilega bita!

Svona geririðu: Ofninn er hitaður í 180°C, Kjúklingabitarnir eru brúnaðir á pönnu í olíunni. Sveppum, lauk og hvítlauk bætt útí og látið krauma við frekar vægan hita í nokkrar mínútur. Papriku og tómötum skellt útí (safanum af tómötunum með), líka víninu og soðinu og saltað og piprað. Hitað að suðu og skellt í eldfast mót. Kryddjurtunum skellt útí og inní ofn í 15-20 mínútur. Fínt er að skera aðeins í þykkustu bitana til að athuga hvort kjúklingurinn er tilbúinn.

Að lokum: Þetta er svo borið fram með tagliatelle eða öðru pasta og auðvitað rífur maður parmesan ost yfir og dreypir á hvítvíni með. Okkur fannst þetta öllum gott, krökkunum líka. Ég setti bara heilar rósmarín greinar útí þetta og veiddi þær svo uppúr áður en ég bar þetta fram. Hefði líka verið gott að vera með nýbakað brauð með, en það er alls ekkert nauðsynlegt. Það var reyndar frekar ógó að hluta niður kjúllann og ég hafði aldrei prófað að gera það áður. Ekkert erfitt (notaði þetta mér til innblásturs) en kjúklingar eru bara frekar ógó.. og það eru innyfli og allt inní honum.. ojj.. en mæli samt alveg með því að maður láti vaða í það í staðinn fyrir að kaupa bringur eða einhverja bita. en já þetta er frekar gott..

Potturinn kominn út úr ofninum, Looking good!
og á diskinn minn. Nammmmmm….

Eplakaka

Bakaði þessa eplaköku í dag. Þetta er auðvelda eplakakan hennar Kollu. Og þar sem við áttum einmitt þrjú epli sem voru við það að skemmast þá ákvað ég að skella í þessa og heppnaðist hún svona líka vel! Akkúrat það sem þurfti til að ná mér aðeins upp eftir vonbrigðin yfir því að Íslendingar létu tækifærið sér úr greipum ganga að kjósa sér nýjan forseta.. þeir kusu sér gamlan og súran.. þá er gott að fá sér sæta eplaköku.

Ilmandi eplakaka…..

Þetta þarftu: 300 gr hveiti, 300 gr sykur, 300 gr smjör, 3 egg, 3 epli, 1 1/2 tsk lyftiduft

Svona gerirðu: Hrærðu saman egg og sykur. smjörið er brætt og bætt útí, svo hveitið og lyftiduftið. Skellið deiginu í smjörað form. Skerið epli í litla báta og skrællið og raðið ofan á deigið. Þvínæst stráið þið kanil yfir. Svo inn í ofn í svona þrjú korter.

Að lokum: Þetta er auðvelda kakan því það er svo auðvelt að muna hvað er í henni. þrennt af öllu! og maður á líka eiginlega alltaf í hana. Það er algjört overkill að setja kanilsykur yfir hana því það er feikinóg af sykri í henni. Alveg nóg að sáldra bara kanildufti. Svo auðvitað borðar maður rjóma með.. mér finnst líka overkill að borða ís með henni því hún er sæt og verður of sæt með ís.. Frábær sunnudagskaka!

 

Massabrauð Kollu sætu

Þetta þarftu: Fimmsinnum 250ml hveiti, 5dl vatn (volgt), eitt gerbréf, góðan slump af olíu, smá salt og 1msk sykur.

Svona gerirðu: Setjið volga vatnið í skál og setjið gerið út í það ásamt sykrinum og saltinu. Þetta er hrært saman þangað til gerið leysist upp. Svo skal hveitinu hrært út í smám saman. Takið svo deigið úr skálinni og hnoðið það þangað til það verður æðislegt. Þvínæst er það látið hefast í amk 45mín. Þá mótið þið tvö brauð úr deiginu og látið hefast aftur í svona hálftíma. Svo er þetta bakað við 180°C-200°C þangað til það fer að dekkjast.

Að lokum: Þetta er alveg massa brauð.. og þau eru tvö.. brauðin, ha? súkkulöðin?? nei, tvíburarnir! hahahah.. allavega.. Ég baka þetta brauð eiginlega alltaf þegar ég baka brauð með mat (kjúklingasúpunni, pestókjúlingnum og allskonar). Einusinni bakaði ég þetta líka öðruvísi en þá setti ég sólþurrkaða tómata í deigið og úr varð svo gott tómatbrauð að ein í saumaklúbbnum hélt að það væri frá Jóa Fel.. iss nei, þetta er sko frá Kollu sætu !!