Category Archives: uppskriftir

Þórukjúklingur

Gestakokkurinn er Unnur

Unnur, elskuleg vinkona Kúrbítsins, var svo góð að senda okkur þessa frábæru uppskrift og er því viðbót í kúrbítsins flokk frábærra Gestakokka.

Eldhressar í Þórsmörk haustið 1998

Þetta þarftu: Kjúklingabringur hmm segjum svona 4 – 5, rétt tæplega flaska af Hunts BBQ sósu, einn peli rjómi – matreiðslurjómi ótrúlega friendly kostur, dass af pipar, dass af salti, rúmlega dass af karrý.

Svona gerum við: Skerið bringurnar í ræmur, bita, þríhyrninga eða hvað sem ykkur finnst best og setjið í eldfast mót. Hitið saman BBQ, rjómann og kryddið – hellið yfir og hitið í ca 45 mín við 180°.

Að lokum: Hæ elskurnar ….. ég bara varð að henda inn uppskrift af “Þórukjúklingi”. Þóra er sem sagt kona sem bjó við hliðina á okkur í Ystabænum en dó langt fyrir aldur fram og kenndi mér þennan rétt sem er soldið spari – enda soldið af kaloríum ……. Gott með: Salat og hrísgrjón og að sjálfsögðu gott sætt hvítvín. Njótið vel og förum nú að finna okkur helgi í útilegu, fjallgöngu eða bara hitting með góðum mat og góðum veigum ….. Unns punns gestakokkur

Kartöflubátar

Þetta þarftu: 800gr kartöflur – stórar, 4 msk ólífuolía, 3 hvítlauksgeirar saxaðir smátt, 1-2 msk saxaðar ferskar kryddjurtir – t.d. rósmarín, timjan og basilíka, 1 msk sítrónusafi, 1 msk dijon sinnep, nýmalaður pipar og salt

Svona geririðu: Ofninn er hitaður í 200°C. Kartöflurnar burstaðar, þerraðar og skornar í báta eftir endilöngu. Þeim er svo vellt uppúr olíunni og svo raðað á álpappírsklædda bökunarplötu en olían geymd. Kartöflurnar settar í ofninn og bakaðar í um hálftíma. Snúið tvisvar eða þrisvar svo þær festist ekki við. Kartöflurnar eru þá teknar út og grillið í ofninum hitað. Hvítlauk, kryddjurtum, sítrónusafa, sinnepi, salti og pipar blandað saman við afganginn af olíunni og kartöflunum svo hrært saman við. Sett aftur á plötuna og inn í ofn undir grillið þangað til þær eru orðnar gullbrúnar. Snúið tvisvar.

Að lokum: Við smökkuðum þessar kartöflur fyrst í ótrúlega góðu fondue partýi hjá Sædísi. Myndin af henni og Védísi Helgu er reyndar tekin í Grease partýinu fræga sem var alveg frábært partý, löggan kom og allt! Það er samt önnur saga..
Við höfum þetta oftast með einhverjum góðum grillmat og ég held ég hafi nú alltaf notað aðeins meira en 4 msk af ólífuolíu og líka aðeins meira af krydjurtum en 1-2 msk enda fáránlegt að mæla ferskar kryddjurtir í matskeiðum. Þetta eru svona ofnbakaðar kartöflur sem maður nennir kanski ekki alltaf að gera, þetta er meira svona spari.. allavega hjá okkur.

Síkátar og sætar

Heiti réttur Bríetar

Þetta þarftu: 2 dl rjóma, 1 stk camembert ost, 1-2 bréf skinka, 1-2 paprika (mér finnst best að fá mér tvær litlar af sitthvorum lit.. maður verður að skreyta!), 1 stk fransbrauð og rifinn ostur.

Svona gerirðu: Rjóminn er settur í pott (ef þið eruð í megrun er hægt að nota mjólk á móti rjómanum til að gera þetta aðeins léttara) svo flysjar maður bara hvíta dótið af camembertinum og sker hann í bita og lætur hann bráðna í rjómanum. Brauðið er rifið niður (skorpan er ekki notuð) og það sett í eldfast mót. Paprika og skinka er skorin niður og dreift yfir og blandað við brauðið. Sósunni er svo helt yfir og best er að hafa þetta vel soggí. Svo bara ostur yfir og bakað í ofninum þangað til osturinn er orðinn brúnaður.

Að lokum: Þetta er alveg pottþéttur heitur réttur sem hefur verið notaður við mörg tækifæri, tildæmis saumaklúbba, barnaafmæli, skírnir og bara allt! Hann er upphaflega kominn frá henni Bríet sem var með mér í bekk í landfræðinni. Þessi klikkar aldrei og öllum finnst hann góður.. öllum! HB


Fiskisúpa Miðjarðarhafsins

Girnileg súpa

Þetta þarftu: 400g fiskur, roðlaus og beinlaus, 250g hörpudiskur, 4 laukar, 3 hvítlauksrif, 400g sveppir, 2 msk olía, 3 tsk salt, 2tsk svartur pipar, 1msk karrí, 2tsk túrmerik, 1dós niðursoðnir tómatar, 1/2 lítri hvítvín (má nota kjúklingasoð), 1/2 lítri vatn, 3 lárviðarlauf, 1 dós kræklingur, 1 búnt steinselja.

Svona gerirðu: Saxið lauka og hvítlauk og skerið niður sveppi. Mýkið í olíu í 1-2 mínútur í stórum potti. Kryddið með salti, pipar, karrí og túrmeriki. Setjið tómata, hvítvín (eða soð), vatn og lárviðarlauf út í pottinn. Látið suðu koma upp og sjóðið í 3-4 mín. Skerið fiskinn í litla bita og setjið í súpuna ásamt frosnum hörpudiski. Sjóðið í 3-4 mínútur. Bætið kræklingnum útí og hitið að suðu. Saxið steinseljuna og stráið yir súpuna.

Pési bíður spenntur eftir að fá að smakka

Að lokum: Þó þetta heiti fiskisúpa er þetta sjúklega góð súpa. Ég hef eiginlega alltaf lúðu í henni og sleppi líka kræklingnum því mér finnst hann vondur og set yfirleitt humar í staðinn.. að sjálfsögðu! En það er alveg hægt að setja allskonar fiska í þetta.. að sjálfsögðu ber maður nýbakað brauð fram með svona súpu og mæli ég með massa brauði kollusætu!! Ég fékk þessa uppskrift upphaflega úr bókinni Af bestu lyst 2 og get sko sagt ykkur að þessi súpa er ógeðslega holl. Það stendur sko í bókinni! HB

Bleika pastað

Þetta þarftu: Tvær kjúklingabringur, 1 paprika, rauðlaukur, hvítlaukur, sólþurkaðir tómatar, paprikusmurostur, mjólk, rjómaostur m/sólþurrkuðum tómötum, penne regate (pasta hólkar) olía til steikingar, salt/pipar.

Svona gerirðu: Sjóddu pastað. Skerðu kjúklinginn í netta bita og steiktu á pönnu upp úr olíu. Saltaðu og pipraðu. Skerðu niður rauðlauk, hvítlauk og papriku og steiktu í potti í olíu. Saxaðu sólþurkaða tómata og settu út í. Þetta er allt látið mýkjast í pottinum. Settu svo ostana út í og svolitla mjólk og láttu bráðna saman svo úr verði sósa. Bættu svo kjúklingum út í og hitaðu að suðu.

Að lokum: Þetta er réttur sem pabbi (algjör kokka snilli) skáldaði upp úr sér einhverntíma þegar ég var í mat hjá honum og þetta er alveg svaka gott. Ég nota alltaf léttmjólk þegar ég geri sósuna svo hún verði ekki mjög krímí. Þá verður hún líka soldið þunn, en mér finnst það bara betra. Mér finnst líka mjög gott að hafa mikinn hvítlauk og mikinn pipar. Uppskriftin er fyrir 2-4. Þessi frábæri réttur er oftast kallaður bleika pastað á mínu heimili. HB